Tungutækniverkefni menntamálaráðuneytisins

Tungutækniverkefni ráðuneytisins hófst haustið 1998 að frumkvæði Björns Bjarnasonar, þáverandi menntamálaráðherra. Í apríl 1999 birtist skýrsla starfshóps sem falið hafði verið að kanna hver staða íslenskrar tungu væri í upplýsingaþjóðfélaginu. Í starfshópnum voru Rögnvaldur Ólafsson eðlisfræðingur, Eiríkur Rögnvaldsson prófessor í íslenskri málfræði og Þorgeir Sigurðsson, rafmagnsverkfræðingur og íslenskufræðingur. Í skýrslunni kom fram að átak þyrfti að gera á fjórum sviðum (Rögnvaldur Ólafsson 2004:5):

  • Byggja upp sameiginleg gagnasöfn, málsöfn, sem geti nýst fyrirtækjum sem hráefni í afurðir
  • Hagnýtar rannsóknir á sviði tungutækni þyrfti að styrkja
  • Fyrirtæki ætti að styrkja til þess að þróa afurðir tungutækni
  • Menntun á sviði tungutækni og málvísinda yrði að efla

Rögnvaldur segir einnig „að tilgangur Tungutækniverkefnisins sé að koma fótum undir tungutækni á Íslandi. Í því felst að byggja upp þekkingu á viðfangsefninu og þá gagnagrunna sem þarf til þess að hægt sé að nýta íslenskt mál, bæði ritað og mælt, í nýjustu samskipta- og tölvutækni.“ (Rögnvaldur Ólafsson 2004:5).

Auk Beygingarlýsingarinnar hlutu tvö önnur verkefni Orðabókar Háskólans styrk í þessu átaki, Málfræðilegur markari fyrir íslensku og Mörkuð íslensk málheild.

 

KB 1.10.2013