Lýsandi og vísandi málfræði

Í lýsandi málfræði er tungumálinu lýst eins og það kemur fyrir í ræðu og riti. Vísandi málfræði er höfð til leiðbeiningar fyrir þá sem vilja vanda mál sitt og þar er tekin afstaða til þess hvað þykir gott eða vont mál eða jafnvel rétt mál og rangt. Höskuldur Þráinsson lýsir muninum á lýsandi og vísandi málfræði (forskriftarmálfræði) í setningafræðihluta ritverksins Íslensk tunga (2005):

  • Lýsandi málfræði fæst við að lýsa þeim reglum sem gilda í tilteknu tungumáli en í forskriftarmálfræði er lögð áhersla á að benda á atriði sem menn eiga að fara eftir, a.m.k. við tilteknar aðstæður eða í ákveðnu málsniði. (Íslensk tunga III:5)
  • . . . stundum er gert upp á milli ólíkra málvenja og stundum ekki og það er ekki alltaf gott að átta sig á því hvað ræður. En ef amast er við tiltekinni málvenju í skólum leiðir það til þess að málnotkun í samræmi við hana verður ótæk á opinberum vettvangi, hún samrýmist ekki opinberu málsniði. (Íslensk tunga III:7)
  • Af því sem nú var rakið má sjá að lýsandi málfræði getur verið byggð á dálítið mismunandi forsendum. Annars vegar getum við haft mállýsingu sem byggð er á máltilfinningu og mati málnotenda, m.a. þess sem semur lýsinguna ef um er að ræða móðurmál hans. Slíka lýsingu má þá skoða sem lýsingu á málkunnáttu þeirra málnotenda sem hefur verið leitað til [. . . ]. En við getum líka verið með lýsingu á málfræðilegum einkennum tiltekins texta eða dæmasafns, eins og til dæmis texta Nýja testamentisins í þýðingu Odds Gottskálkssonar. (Íslensk tunga III:10)

Þar sem Beygingarlýsingin er ætluð til nota í máltækni liggur í hlutarins eðli að verkið verður að vera lýsandi. Gögn úr vísandi lýsingu á beygingarkerfinu myndu ekki duga til greiningar á orðmyndum í textum. Í athugasemdum ofan við einstök beygingardæmi á vefsíðunni er leiðbeiningar um málnotkun sem notendur geta haft til hliðsjónar við val á afbrigðum af beygingarmyndum.

 

KB 1.10.2013