Samstarfið við Spurl og Já

Árið 2005 hóf Hjálmar Gíslason hjá Spurl ehf. vinnu við gerð leitarvélar fyrir Morgunblaðið þar sem gögn úr Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls voru notuð. Leitarvélin hlaut nafnið Embla og var sú fyrsta sinnar tegundar en með henni var hægt að leita að öllum beygingarmyndum orðs í einu.

Haustið 2005 fékkst styrkur frá Tækniþróunarsjóði til þess að smíða vefkerfi til viðhalds og þróunar á gögnunum í BÍN, Veflæga orðmyndabók, sem var samvinnuverkefni Spurl og Orðabókar Háskólans. Þetta var upphafið að farsælli samvinnu. Orðabók Háskólans varð hluti af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum árið 2006 og Spurl, síðar Já-Spurl ehf. (dótturfyrirtæki Símans) er nú tæknideild Já ehf. Árið 2007 var nýja vefsíðan opnuð. Öll forritun, hýsing og rekstur kerfisins var upphaflega í höndum Spurl en er nú í höndum Já og er sá stuðningur við BÍN ómetanlegur.

Árið 2010 var efnt til keppni um hagnýtingu á gögnum úr BÍN til máltækninota. Keppnin fékk nafnið Þú átt orðið og alls bárust 26 tillögur. Jafnframt veitti Já Árnastofnun myndarlegan styrk í tilefni af því að gögn úr BÍN voru gerð aðgengileg til máltækninota án endurgjalds.

 

KB 1.10.2013