Almennir skilmálar um notkun, birtingu og framsal gagna úr BÍN

  1. Réttindi á sviði hugverkaréttar að BÍN, hvort sem um ræðir höfundarétt, skyld réttindi, hönnun, vörumerkjarétt eða önnur réttindi er nú er að finna í lögum eða síðar kunna að verða í lög leidd eru á hendi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
  2. Skylt er að geta rétthafa BÍN á ótvíræðan hátt í notendaviðmóti í þeim máltæknibúnaði og öðrum afurðum sem gerð eru samkvæmt samningum um notkun á gögnum úr BÍN.
  3. Framsal gagna úr BÍN, að hluta eða í heild, til þriðja aðila er óheimilt. Leyfilegt er að láta gögn úr BÍN fylgja hugbúnaði sé tryggt að notkunin brjóti ekki í bága við notendaskilmála BÍN og að þriðji aðili undirgangist skilmálana að öllu leyti.
  4. Birting eða endurgerð beygingardæma úr BÍN er óheimil. Leyfi til notkunar á BÍN nær ekki til vinnu við beygingarforrit sem unnið er upp úr gögnum úr BÍN nema með sérstökum samningi.
  5. Breyting á gögnum er óheimil, að því marki sem hún kemur fram í afurðum eða niðurstöðum sem stangast á við upprunaleg gögn úr BÍN og gefa villandi eða rangar málfræðilegar upplýsingar, enda er skylt að geta rétthafa BÍN í notendaviðmóti í öllum afurðum sem unnin eru úr BÍN, sbr. 2. gr. hér.
  6. Höfundar eiga rétt á verkum sem unnin eru samkvæmt samningum um notkun á BÍN. Tilkynna ber SÁ um slík verk og jafnframt að veita stofnuninni óframseljanlegan nýtingarrétt á þeim án endurgjalds, sé þess óskað.
  7. SÁ ábyrgist ekki að BÍN henti fyrir tiltekna notkun eða tilteknar aðstæður. Stofnunin ber undir engum kringumstæðum ábyrgð gagnvart notanda á tjóni vegna notkunar BÍN, þar með talið óbeinu tjóni, svo sem tapaðri viðskiptavild eða töpuðum ágóða.
  8. Skilmálar þessir gilda um gögn úr BÍN sem sótt eru á vefsetrið bin.arnastofnun.is/mimisbrunnur/. Ítrekað er að öll afritun BÍN-vefsíðunnar er bönnuð án leyfis.