Spurningar og svör

Spurningarnar eru flokkaðar eftir efni og þeim steypt saman. Aðalatriðin eru dregin saman fremst í hverjum lið með bláu letri þegar margar spurningar eru felldar saman.

Ég finn ekki orðið …:  Ertu örugglega að leita að uppflettimynd? Annars þarf að haka við „Leit að beygingarmynd“.

 • hestunum:
  Beygingarmyndin hestunum er þágufall fleirtölu af nafnorðinu hestur. Ef leitað er að orðmyndum öðrum en uppflettimyndum þarf að haka við reitinn „Leit að beygingarmynd“.
 • önnur, kvenkyn:
  Orðið er greint sem fornafn og raðtala (sem er undirflokkur lýsingarorða) og það beygist í kyni, tölu og falli. Kvenkynið er því að finna undir uppflettimynd í karlkyni: annar.
 • sögufrægasti:
  Beygingarmyndin sögufrægasti er efsta stig af lýsingarorðinu sögufrægur. Ef leitað er að orðmyndum öðrum en uppflettimyndum þarf að haka við reitinn „Leit að beygingarmynd“.

Ég finn ekki orðin …: Ertu örugglega að leita að einu íslensku orði?

 • mjúk sæng / nýi bíllinn:
  Í beygingardæmunum er aðeins sýnd beyging stakra orða, ekki sambeyging lýsingarorðs og nafnorðs.

Ég finn ekki orðið … : Er orðið úr íslensku nútímamáli? Er stafsetningin rétt? Er uppflettimyndin rétt?

 • sögnina knega:
  Orðaforðinn í BÍN er úr nútímamáli. Sögnin knega er úr fornu máli.
 • orðið merkingabær:
  Þarna vantar -r-. Orðið merkingarbær er á sínum stað í BÍN.
 • orðið óhugnalegur:
  Þarna vantar -n-. Orðið óhugnanlegur er á sínum stað í BÍN.
 • orðið birgi:
  Orðmyndin birgi er þolfall og þágufall af nafnorðinu birgir sem beygist eins og læknir. Orðið er haft um þann sem sér einhverjum, t.d. smásöluverslun, fyrir aðföngum. Sá misskilningur virðist kominn á kreik að nefnifall eintölu sé birgi og beygist eins og Siggi. Þetta er ekki rétt.
 • Orðið farateski vantar í BÍN:
  Orðið farteski er í BÍN og einnig í Ritmálsskrá OH og Íslensku textasafni. Elsta dæmið um farteski í Ritmálssafni er frá tímabilinu 1733-1866. Orðmyndirnar farateski og fararteski finnast  hvergi í heimildum á orðfræðisviði Árnastofnunar og nefnimyndin farateski finnst ekki einu sinni á Google en þar eru nokkur dæmi um fararteski. Til þess að afbrigði rati í BÍN þurfa að finnast um það staðfestar heimildir. 

Ég finn ekki orðið ... : Í BÍN eru aðeins orð úr orðflokkum sem beygjast. Atviksorð sem stigbreytast ekki eru ekki í BÍN og forsetningar og óbeygjanleg töluorð ekki heldur. 

 • aldrei / alveg / ávallt / hingað:
  Þetta eru óbeygjanleg atviksorð.
 • í:
  Orðið er forsetning og beygist ekki.
 • sautján / sjötíu:
  Þetta eru óbeygjanleg töluorð.
 • fyrirfram / ennfremur: Samkvæmt Stafsetningarorðabókinni (2006) skal rita fyrir fram og enn fremur í tveimur orðum. Í Íslenskri orðabók (2007) eru bæði afbrigðin sýnd, tvö orð og eitt. Þar er ennfremur haft í sviga á eftir enn fremur en fyrir fram og fyrirfram eru sýnd án svigans. Þessi atviksorð eru óbeygjanleg.

Er þetta orð ekki gott og gilt íslenskt orð? Það vantar í BÍN ... : BÍN er ekki tæmandi heimild um íslenskan orðaforða. Allar ábendingar eru vel þegnar og reynt er að bæta orðunum við eins hratt og hægt er þegar staðfest dæmi finnast.

 • Orðið Pírati / sæbjúga / frístundaheimili / geislafræðingur / sýrublandaður / nýmálaður /Vaðlaheiðarvegavinnuverkfærageymsluskúr vantar í Beygingarlýsingu: BÍN er ekki tæmandi og verður það aldrei, enda er reglur um samsett orð í íslensku með þeim hætti að ný orð verða til á hverjum degi. Stefnan er að hafa þau orð í BÍN sem ætla má að fólk rekist á í venjulegu máli. Til samanburðar má nefna að í Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans eru yfir 700 þúsund uppflettiorð. Orðið Vaðlaheiðarvegavinnuverkfærageymsluskúr er t.d. tilbúið dæmi sem þjónar þeim tilgangi að sýna hvers reglur um samsett orð eru megnugar og því er ekki ástæða til að bæta því í BÍN. Beyging orðsins ætti ekki að valda vandkvæðum; það beygist eins og ósamsetta orðið skúr (kk).

Rétt og rangt ...

 • Værir þú til í að vera svo væn að segja mér hvort rétt sé að skrifa dyggð eða dygð.
  Báðar ritmyndirnar eru réttar.
 • Hvert er rétt: ýmiss konar, ýmisskonar, ýmiskonar? Í BÍN er ýmisskonar og ýmiskonar en ég fékk rangt á prófi fyrir ýmiskonar ...
  Í BÍN eru beygingardæmi og í þeim er aðeins sýnt eitt og eitt orð í einu en hvorki sambeygð orð né orðasambönd. Vegna þessa eru ýmisskonar og ýmiskonar uppflettiorð í BÍN en ýmiss konar ekki. BÍN er heldur ekki stafsetningarorðabók. Í athugasemdum ofan við beygingardæmin er gerð grein fyrir afbrigðum og álitamálum eftir því sem tök eru á.  Þegar stuðst er við BÍN sem heimild í námi er best að fara eftir leiðbeiningunum í athugasemdunum. Í BÍN er hvorki leyft né bannað og orðalagið í athugasemdunum er með ýmsu móti. Sæmilega glöggur lesandi ætti samt að geta dregið sína ályktun sjálfur af gögnunum. Leiðbeinandi eða vísandi heimildir um íslenska stafsetningu eru t.d. Stafsetningarorðabókin (Íslensk málefnd 2006), Handbók um íslensku (Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum 2011) og Málfarsbanki Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Beygingarlýsingin er hins vegar lýsandi heimild um beygingarkerfið eins og það birtist í ræðu og riti. Spurningin var „Hvert er rétt?“ en svarið er að ýmiss konar sé best. Á stafsetningarprófi hlýtur markmiðið að vera að hafa þann háttinn á sem mælt er með í Stafsetningarorðabókinni og í Málfarsbankanum og fullnægja með því ítrustu kröfum.

Af hverju ber BÍN og Málfarsbankanum eða Stafsetningarorðabókinni (2006) ekki saman?  BÍN er lýsandi en ekki vísandi gagnasafn um íslenska beygingu þar sem stuðst er við allar tiltækar heimildir og afbrigði sýnd þar sem þess er þörf. Málfarsbankinn og Stafsetningarorðabókin eru vísandi eða leiðbeinandi verk.

 • BÍN er ekki stafsetningarorðabók. Þar eru ýmis stafsetningarafbrigði sem koma fyrir í rituðu máli, jafnvel þótt ekki sé mælt með þeim. Í athugasemdum ofan við beygingardæmin er gerð grein fyrir þessu.
 • Af hverju er beygingin í BÍN ekki eins og í Málfarsbanka eða Stafsetningarorðabókinni (2006), t.d. -na í eignarfalli fleirtölu í veikum kvenkynsnafnorðum: amma, mamma, drakma?
  Dæmaleit staðfestir ekki -na í orðunum hér að ofan og forsendur -na í þessum orðum eru veikar þar sem klasarnir -mmn- og -kmn- koma ekki fyrir nema á orðhlutaskilum í íslenskum orðum, þ.e. á undan viðskeyti eða síðari hluta í samsettu orði.

Samsett orð:

 • Af hverju er -s í athyglisverður?
  Innskots-s kemur fyrir í fjölmörgum samsettum orðum þar sem fyrri hlutinn er kvenkynsorð sem endar á -i í nefnifalli. Í nútímamáli er eðlilegt að greina þetta -s sem e.k. bandstaf. Þetta eru leifar af afbrigðilegri eignarfallsmynd í kvenkyni sem kemur fyrir í textum allt frá fornu máli. Jón Hilmar Jónsson gerir grein fyrir þessu fyrirbæri í formála að útgáfu sinni á Orðbók Gunnlaugs Oddssonar (Orðabók Háskólans 1991, bls. xxvii) en hún ætti að finnast á bókasöfnum.
  Kvenkynseignarfallsendingin -is hefur lifað lengst í samsettum orðum en er nú að öðru leyti horfin. Hér eru nokkur dæmi þar sem fráleitt væri að sleppa -s-inu: keppnisandi, keppnismaður, feimnisbros, heppnismaður, hræsnisfullur, hæðnisbros, kurteisisorð, kurteisisformúla (alls ekki keppniandi, hræsnifullur, hæðnibros og kurteisiorð!) Það að sleppa -s-inu úr athyglisverður virðist vera einhvers konar ofvöndun sem byggist á þeim misskilningi að í samsettum orðum sé fyrri hlutinn alltaf annaðhvort í eignarfalli eða þá bara stofninn einn.
 • Af hverju er samsetningin sjóðstreymi ekki í BÍN? Samsetta orðið sjóðsstreymi er þar. Í Málfarsbankanum eru báðar myndirnar en þar er mælt með því að nota þá fyrri.
  Orðin sjóðstreymi og sjóðsstreymi eru bæði rétt mynduð; fyrri myndin er stofnsamsett en í þeirri síðari er eignarfallssamsetning. Það er tilviljun að aðeins önnur orðmyndin hefur ratað inn í BÍN sem er ekki tæmandi heimild um íslenskan orðaforða. Munurinn á BÍN og Málfarsbankanum er sá að BÍN er lýsandi heimild um íslenska beygingarkerfið en Málfarsbankinn er vísandi og þar er tekin afstaða þegar eitt þykir betra en annað þó að hvort tveggja teljist rétt. Þar eru m.ö.o. gefnar leiðbeiningar um það sem æskilegast þykir.
 • Er orðið "leiðsagnir" til, þe. er hægt að beygja orðið leiðsögn í fleirtölu...?
  Merking orðsins gerir það að verkum að mér sýnist ankannalegt að nota orðið í fleirtölu en skýringin í Íslenskri orðabók (2007) er "það að vísa leið" (sjá uppflettiorðin leiðsaga og leiðsögn). Venjulegast er að verknaðarorð sem útskýrð eru með „það að …“ komi ekki fyrir í fleirtölu, t.d. „blaðfall: það að planta fellir blöð“ en þar væri fleirtalan „blaðföll“ fráleit.
  Af merkingarlegum ástæðum þykir mér eintalan því eðlilegri: „Leiðsögn verður um sýninguna tvisvar í dag, kl. 15 og kl. 16 ... “

Beyging mannanafna:

 • Samsett kvennöfn: Hvernig beygist Annamaría?
  Fyrri hluti nafnanna Annalísa, Annabella, Annadís, Annamaría og Annarósa er kvennafnið Anna. Í íslensku er hefðbundið að skrifa nöfn af þessu tagi í tveimur orðum, þ.e. Anna Lísa, Anna María o.s.frv., eða jafnvel með bandstriki, Anna-Lísa, Anna-María  o.s.frv. Fyrri hlutinn beygist þá alltaf, þf. Önnu Lísu, Önnu Maríu, Önnu-Lísu, Önnu-Maríu. Rithátturinn Annamaría er tekinn upp að erlendri fyrirmynd, t.d. úr dönsku þar sem ritvenjan er önnur. Þrátt fyrir ritháttinn er fyrri hlutinn beygður, Annamaría, þf. Önnumaríu. Þetta er í fullu samræmi við önnur orð í málinu þar sem fyrri liður er í nefnifalli, t.d. samsetningar á borð við hæstiréttur, svartipétur, litliputti, stóratá og Litlabrekka. Í aukaföllum er fyrri liður þessara orða alltaf beygður:

  Dæmi:  Málinu var vísað til hæstaréttar (ekki: til hæstiréttar)
               Hann var að spila svartapétur (ekki: spila svartipétur)
               Ég meiddi mig á litlaputta (ekki: á litliputta)
               Hún fór að heimsækja Önnumaríu (ekki: heimsækja Annamaríu)

  Nöfn á borð við Annamaría voru sett inn í BÍN að undangenginni ítarlegri rannsókn á beygingunni í öllum tiltækum rafrænum gögnum. Ef fyrri hluti nafnanna er hafður óbeygður, þ.e. Annamaríu í aukaföllum,  hlyti fyrri hlutinn Anna að vera dreginn af kvenkynsnafnorðinu önn í fleirtölu, sbr. annatími, annatími og annasamur. Í gögnunum er enginn fótur fyrir þessari orðhlutagreiningu á nafninu.
 • Er rangt að hafa þolfall og þágufall af nafninu Fanney endingarlaust? Af hverju beygist Sóley ekki eins og ey?
  Beyging mannanafna er oft önnur en orða eða orðhluta í almennu máli, sbr. t.d. fingurbjörg (þf. fingurbjörg) og Ingibjörg (þf. Ingibjörgu). Nöfn sem enda á -ey-björg, -rún og -dís eru dæmi um þetta: Fingurbjörg beygist ekki eins og Ingibjörg, galdrarún beygist ekki eins og Guðrún, vatnadís beygist ekki eins og Þórdís og Sóley og Fanney beygjast ekki eins og örefnið Viðey. Þannig hefur þetta einfaldlega verið í aldanna rás. Hefðin er að kvennöfnin Fanney og Sóley fái endingu í þolfalli og þágufalli, Fanneyju, Sóleyju. Öll kvennöfn sem enda á eða -ey beygjast á sama hátt, t.d. Bjargey, Friðmey, Laufey, Guðný, Signý o.fl.  Beygingin á nöfnunum Fanney og Sóley í BÍN er sú sama og í Íslenskri orðabók (2007), Stafsetningarorðabókinni (2006), Málfarsbankanum og bókinni Nöfn Íslendinga (NÍ, Guðrún Kvaran og Sigurður Jónsson frá Arnarvatni 1991). Allar þessar heimildir eru sammála um að kvennöfn sem enda á -ey fái endinguna -ju í þolfalli og þágufalli. Engin heimildanna gefur kost á endingarleysi í þessum föllum. Þessi beyging á aðeins við kvennöfnin; örnefni sem enda á -ey eru endingarlaus. Fyrirtækjaheiti virðast ýmist beygjast eins og kvennöfnin eða eins og örnefni, oftar þó eins og örnefnin.
 • Hvað eru afbrigðin þrjú í beygingunni á nafninu Berglind gömul?
  Baldur Jónsson prófessor fjallar um beygingu nafnsins Berglind í Málfregnum 1 (1987) og beygingardæmið í BÍN er í samræmi við grein Baldurs. Nafnið Berglind er ekki gamalt í málinu en það mun vera frá því eftir 1930, skv. bókinni Nöfn Íslendinga (2. útg., Guðrún Kvaran 2011).
 • Hvernig beygist karlmannsnafnið Annarr? Nafnið Annarr er ekki í Mannanafnaskrá, a.m.k. ekki enn sem komið er. Það hlýtur að beygjast eins og Almarr og önnur slík nöfn. Síðara -r-ið er nefnifallsending og fellur út í aukaföllum. Beygingarmyndirnar Almarri, Almarrs/Óttarri, Óttarrs o.s.frv. eru því rangar.
 • Er föðurnafnið Óttarrsdóttir rétt? Nei, rétt mynd er Óttarsdóttir. Í karlmannsnöfnum sem enda á -rr í nefnifalli er síðara -r-ið nefnifallsending sem ekki kemur fram annars staðar í beygingunni, frekar en nefnifallsendingin -ur. Óttarrsdóttir er því jafnfráleit orðmynd og Haraldursdóttir.
 • Ég fletti upp nafninu Karen og þar kemur fram að tvenns konar beyging sé leyfileg. Nú langar mig til að forvitnast um það hvenær og hvers vegna tvenns konar beyging varð leyfileg á þessu nafni. Ég man ekki eftir því að hafa rekist á það að nokkurt annað mannanafn hafi tvenns konar beygingu. Mér finnst þetta valda nokkrum ruglingi hjá fólki og hef meira að segja lent í því að rökræða við nokkra um þetta. Einn benti á að nafnið beygðist eins og Elín og fengi því þessa -u endingu í þf og þgf. Ef það er tilfellið skil ég ekki af hverju þessi nöfn eru lögð að jöfnu að þessu leyti þar sem ending þeirra er ekki sú sama.
  Það er misskilningur að afbrigði komi ekki fyrir í beygingu mannanafna, rétt eins og í beygingu nafnorða yfirleitt og reyndar í beygingu annarra orðflokka líka: Þorkell, þgf. Þorkatli/Þorkeli; Höskuldur, ef. Höskulds/Höskuldar, Margrét, þf. og þgf. Margréti/Margrétu, Sigrún, þf. og þgf. Sigrúnu/Sigrúni, Guðrún, þf. og þgf. Guðrúnu/Guðrúni. Stundum eru afbrigði mállýskubundin, eins og t.d. beygingarmyndirnar Sigrúni og Guðrúni sem eru af Austurlandi. Sjaldgæft er að afbrigði séu fleiri en tvö í sömu beygingarmynd en þó eru þess dæmi: Berglind, þf. og þgf. Berglind/Berglindi/Berglindu.  Dæmi um afbrigði í beygingu mannanafna eru mýmörg. Í BÍN eru 35 kvennöfn í sama beygingarflokki og Karen og þessi nöfn eru ýmist endingarlaus í þolfalli og þágufalli eða með endingunni -u. Þar á meðal eru nöfnin Malín og Maren en stofngerð þeirra er sú sama og nafnsins Karen.
  Beygingarmyndirnar Karen og Karenu eru sem sagt jafngildar í þolfalli og þágufalli. Afbrigði í máli eru auðvitað oft tilefni til skemmtilegra rökræðna en það skemmtilegasta er e.t.v. það að þeir sem eru á öndverðum meiði geta stundum báðir haft rétt fyrir sér.
 • Þágufall af karlmannsnafninu Þorgils. Á það ekki að vera endingarlaust?
  Heimildin fyrir beygingunni á nafninu Þorgils í BÍN er bókin Nöfn Íslendinga eftir Guðrúnu Kvaran og Sigurð Jónsson frá Arnarvatni (Heimskringla 1991). Það er ekki einsdæmi að samsett nöfn beygist ekki eins og ósamsett nöfn en það sama á við um Geir/Ásgeir (o.fl., þgf. Geir/Ásgeiri) og Þór/Borgþór (o.fl., þgf. Þór/Borgþóri).
  Í Íslensku textasafni eru fjölmörg dæmi úr fornu máli með þágufalls-i og hér eru nokkur sýnishorn:
  Þorsteinn fór til Íslands í elli sinni með Þorgilsi syni sínum ... (Landnáma)
  Um vorið býður Hrólfur Þorgilsi þar að vera með sínum mönnum ... (Flóamanna saga)
  Segir Kormákur Þorgilsi að hann vill einn saman sitja. (Kormáks saga)
  Á eg það allt Þorgilsi að launa, frænda mínum, og Sturlu. (Sturlunga)
  og var hann með Þorgilsi Arasyni um veturinn. (Heimskringla)
  Löngum var hann á Reykjahólum með Þorgilsi frænda sínum ... (Fóstbræðra saga)
  En Húnbogi hinn sterki hleypur í móti Þorgilsi og hjó til hans með öxi ... (Laxdæla)

Ýmislegt ...

 • Fallstjórn sagna: Þá langar mig í leiðinni að gerast svo frökk að spyrja hvers vegna upplýsingar um fallbeygingu eru ekki látnar fylgja með beygingarlýsingu sagnanna. Er ekki mjög auðvelt að læða þessum upplýsingum inn?
  Setningarleg staða orða er ekki viðfangsefnið í BÍN og þar verður að vísa í orðabækur, dæmasöfn og textasöfn. Í BÍN eru nú  8.017 sagnorð (ág. 2013) og vinnan við að setja inn upplýsingar um fallstjórn á andlögum yrði gríðarleg.
  Fall á frumlagi er samt sýnt í BÍN og í ópersónulegum sögnum er  bætt við notkunardæmum fyrir ofan sjálft beygingardæmið þar sem beygingarmyndirnar geta orðið nánast óskiljanlegar án þessara upplýsinga, sjá sögnina batna. Ópersónulegu sagnirnar í BÍN eru u.þ.b. 700. Þetta efni er í vinnslu og þessar upplýsingar eru ekki enn komnar inn í allar ópersónulegu sagnirnar. Hugmyndin er að í athugasemdunum fyrir ofan beygingardæmin í BÍN sé gerð grein fyrir því hvernig beygingarmyndirnar í dæmunum eru notaðar þannig að fólk geti séð hvaða myndir eru í raun umframar. Takmarkið er að sýna takmarkanir á notkun sjálfra orðmyndanna þannig að beygingardæmið  sé nokkurn veginn skiljanlegt. Setningafræðina verð ég að eftirláta öðrum.
 • Hvernig á að fara með eigið fé?
  Í BÍN er ekki mögulegt að sýna beygingu fleiryrtra hugtaka eða sambanda. Orðin tvö í eigið fé eru bæði á sínum stað í BÍN og því ætti ekki að vera vandi að raða þeim saman: nf. eigið fé, þf. eigið fé, þgf. eigin fé, ef. eigin fjár. Sumir nota samsetta orðið eiginfé í stað lýsingarorðs og nafnorðs og samsetta orðið er rétt myndað nafnorð, sbr. eiginmaður, eiginkona. Þennan kost verður að taka í margsamsettum orðum, t.d. eiginfjárstaða. Það getur verið erfitt að komast hjá því að nota samsetta orðið eiginfé þó að mörgum finnist það heldur vont. Þetta stafar af því að lýsingarorðið eiginn getur ekki staðið með nafnorði með greini, þ.e. veik beyging lýsingarorðsins er ekki til.
 • Hvernig er eignarfall fleirtölu af sýra? BÍN er að miklu leyti byggð á gögnum Orðabókar Háskólans, þ.e. Ritmálssafni og Íslensku textasafni. Við leit í Textasafninu að orðmyndunum sýra, sýrna, sýranna og sýrnanna fundust 627 dæmi um sýra en hinar myndirnar fundust ekki. Orðmyndin sýra er auðvitað sjaldnast ef.ft. og miklu oftar nefnifall eða sagnmynd. Í Ritmálssafni eru engin dæmi um sýrna og aðeins 1 dæmi um ef.ft. án greinis: „Samtímis þessu verður efnaverkun sýra og gerhvata.“ Eina dæmið um -na í orðinu sýra í Ritmálssafni er svona: „en kvantítatív ákvörðunm sýrnanna“. Dæmaskorturinn veldur því að beygingarmyndin sýrna er ekki sýnd í BÍN. Niðurstaða Baldurs Jónssonar (Lesbók Morgunblaðsins, 19. ágúst 1973, bls. 14) er á sömu leið, að orð með -r- í stofni fái venjulega ekki -na í ef.ft.
 • Eignarfallið af kvenkynsorðinu beiðni; er það beiðnar?
  Í BÍN eru 134 ósamsett kvenkynsnafnorð sem eru sömu stofngerðar og beiðni og beygjast eins, þ.e. uppflettimyndin endar á -ni og orðin eru endingarlaus í eignarfalli eintölu án greinis. Dæmi: blindni, breytni, feimni. Þessi orð fá -ir í fleirtölu, ef hún er á annað borð til.
  Einu ósamsettu kvenkynsnafnorðin sem enda á -i og fá -ar-eignarfall og -ir-fleirtölu eru fylli, exi og öxi. Önnur orð með uppflettimynd sem endar á -i og eignarfallsmynd með -ar fá öll -ar í fleirtölu líka, t.d. festi, ermi, meri, mýri. Dæmi um tvímyndir í eignarfalli eru byrði, helgi, veiði en þar er fleirtalan líka með -ar.
  Dæmi um eignarfallsmyndirnar beiðnar og beiðnarinnar eru ekki í gagnasöfnum Orðabókarinnar en á vefnum er dálítið af dæmum. Á Tímarit.is er slangur af dæmum um þetta og flest eru dæmin á tímabilinu 1980-1989. Orðmyndirnar eru því sannanlega til en þær geta tæplega talist réttar, sbr. lýsingu á beygingarflokkum hér að ofan. Þar sem þessi dæmi eru svo fá eru þau ekki birt í BÍN.
 • Mig langar til að benda ykkur  á að orðið snjór er hvorki til í fleirtölu né inniheldur bókstafinn V. Samt sem áður eru þessar upplýsingar birtar í gagnasafni ykkar.
  Nafnorðið snjór er vissulega til í fleirtölu og er sennilega algengast í sambandinu þegar snjóa leysir en um það finnast yfir 18 þúsund dæmi við einfalda leit í Google. Í Íslensku textasafni er talsverður fjöldi dæma um fleirtöluna:
  Ísinn var fastur hér við land en það voru ekki miklir snjóar. ... t.d. eftir að snjóar lögðust yfir.
  ... þá er misjafnt hvernig snjóar falla.
  ... og eftir að  snjóar voru komnir að vetrinum,
  Snjóar hafa eigi fallið hér svo teljandi sé.
  Veðurfar og snjóar réðu mestu um það hvenær hross voru tekin til aðhlynningar á vetrum.
  Í Stóru orðabókinni eftir Jón Hilmar Jónsson (2005) er líka að finna nokkur sambönd þar sem orðið snjór er í fleirtölu:
  snjóar og ísalög
  vegurinn lokast í fyrstu snjóum
  fram í snjóa
  Síðasta sambandið er einnig að finna í Íslenskri orðabók. Þar er beygingin á snjór þessi: snjós/snjóar/snjóvar, snjóar/snjóvar (sjá líka grein Gísla Jónssonar í Morgunblaðinu 28. mars 1987). Beygingarmyndir með -v- eru sjaldséðar í nútímamáli en þeim bregður fyrir í tilvitnunum.
  Hér er að lokum eitt gott dæmi um fleirtöluna:
  Ofan gefur snjó á snjó
  snjóum vefur flóa tó.
  Tófa grefur móa mjó
  mjóan hefur skó á kló.
  (Bólu-Hjálmar)

KB 22.11.2013