Eyður í beygingardæmunum

Eyður eru t.d. í beygingardæmum fleirtöluorða (dyr, buxur, skæri, órar, töfrar) þar sem tilbúnar eintölumyndir eru ekki settar upp, í sögnum sem ekki eru til í miðmynd (auðvelda) þar sem germyndin ein er sýnd, í miðmyndarsögnum (<óttast) þar sem germyndina vantar og í sögnum þar sem lýsingarháttur þátíðar er ekki til (duga, kunna). Þá eru eiginnöfn aðeins sýnd í eintölu og örnefni aðeins sýnd í þeirri tölu sem höfð er í hverju örnefni, eins og sjá má af beygingardæmunum Hóll og Hólar.

Gerður er munur á kerfisbundnum eyðum í beygingardæmum og götum þar sem einstakar beygingarmyndir vantar.

 • Kerfisbundnar eyður. Rofar duga til að stjórna birtingu beygingarmynda. Dæmi:
  • Eintöluorð: kaffi, sykur (engin fleirtala)
  • Fleirtöluorð: skæri, öræfi (engin eintala)
  • Germyndarsagnir: bitna (engin miðmynd)
  • Miðmyndarsagnir: óttast (engin germynd)
  • Lýsingarorð sem ekki stigbreytast: aðspurður, afarreiður (hvorki miðstig né efstastig)
  • Atviksorð sem ekki er til í frumstigi: síðar (miðstig, efsta stig  síðast)
  • Heiti. Gert er ráð fyrir eyðum í beygingardæmunum þannig að mannanöfn eru bara beygð í eintölu og tala í öðrum heitum ræðst af uppflettimynd. Örnefnin Hóll og Hólar eru því tvö beygingardæmi.
 • Göt. Rofar duga ekki til að koma götunum til skila í beygingardæminu.
  • Orð þar sem stakar beygingarmyndir vantar í beygingardæmið. Dæmi: Fleirtöluorð í kvenkyni, veik beyging: kröggur, föggur, fórur sem ekki finnast í eignarfalli fleirtölu: *kraggna/*kragga, *faggna/*fagga, *fórna/*fóra.

Merkingarbundin göt í beygingardæmum koma ekki fram í BÍN, t.d. þegar tiltekin formdeild kemur ekki fyrir í tiltekinni merkingu. Dæmi: Þátíð af sögninni valda kemur ekki fyrir merkingunni 'ráða við e-ð'. Í stað þátíðar af ég veld þessu ekki þarf að umorða textann, t.d. með ég réð ekki við þetta. Í athugasemdum ofan við beygingardæmin er gerð grein fyrir merkingarbundinni notkun orðmynda og afbrigða eftir því sem unnt er.

 

KB 1.10.2013