Athugasemdir ofan við beygingardæmin

Notendaathugasemdir birtast efst á skjánum, næst fyrir neðan uppflettiorð, og þær eru yfirleitt um afbrigði og takmarkanir á notkun beygingarmynda, eyður í beygingardæmunum o.þ.h. Þar sem afbrigði í beygingardæmunum sjálfum eru ekki merkt á neinn hátt þjóna þessar athugasemdir sem leiðbeiningar til notenda um notkun á þeim. Athugasemdirnar hafa smám saman orðið til við vinnuna við beygingardæmin og formið á þeim er ekki staðlað. Vísað er í aðrar heimildir eftir föngum, t.d. Orðapistla og Málfarsbanka á vefsíðu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Vísindavefinn.

Dæmi um athugasemdir:

 • Val á milli afbrigða, eftir samhengi, merkingu eða stíl:
  • rif
   Þágufall og eignarfall fleirtölu hafa nánast alltaf -j- á undan beygingarendingu:
   Hún fann enn til sárra eymsla í rifjum.
   Mér rann til rifja að sjá vinnubrögðin.

   Í merkingunni 'rif í sjó', t.d. kóralrif, eru þágufall og eignarfall fleirtölu oftast -j-laus:
   Í heitum höfum lifa kórallar í breiðum eða á rifum á grunnsævi.
  • rödd
   Í þágufalli eintölu bregður gamalli beygingarmynd fyrir í textum: röddu.
   Dæmi: Þeir hrópuðu hárri röddu.
   Sömu orðmynd bregður örsjaldan fyrir í þolfalli eintölu.
   Dæmi: Þeir heyra ekki röddu hans.
 • Ábendingar um úreltar orðmyndir sem ekki birtast í sjálfu beygingardæminu:
  • skjöldur
   Í þolfalli fleirtölu bregður gamalli beygingarmynd fyrir í textum: skjöldu.
   Algengust er orðmyndin í orðasambandinu ganga fram fyrir skjöldu.
 • Ábendingar um að orð eða beygingarmynd komi aðeins fyrir í tilteknu setningarumhverfi:
  • afhroð
   Orðið er einkum notað í þolfalli eintölu í orðasambandinu bíða/gjalda afhroð.
  • auma kvk.
   Orðið er einkum notað í þolfalli fleirtölu í orðasambandinu sjá aumur á e-m.
 • Ábendingar um málvenju:
  • Breiðavík
   Málvenja heimamanna er að hafa fyrrihluta orðsins óbeygðan og hefur svo verið frá fornu fari, nf. Breiðavík, ef. Breiðavíkur.
   Í nútímamáli bregður líka fyrir beygðum fyrrihluta, ef. Breiðuvíkur.
 • Ábendingar um málfar og stafsetningu:
  • hönd
   Upprunalega beygingin er hönd í nefnifalli og þolfalli eintölu
   og hendi í þágufalli.
   Í merkingunni rithönd er þágufallsmyndin hönd notuð:
   Bréfið var skrifað með hönd Jóns Jónssonar.
   Orðmyndin hendi í nefnifalli og þolfalli eintölu er algeng í talmáli,
   sérstaklega í íþróttamáli en er ekki talin æskileg.
   Fleirtölumyndin höndur er gömul í málinu en er nú sjaldséð.
  • afsláttur
   Orðið er yfirleitt haft í eintölu en fleirtölu bregður fyrir í seinni tíð.
   Í Málfarsbanka Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er ekki mælt notkun fleirtölunnar.
  • aceton
   Eldri ritháttur f. aseton.
  • asetón
   Í Stafsetningarorðabókinni (Íslensk málnefnd 2006) er rithátturinn hafður aseton.
 • Ábendingar um mannanöfn:
  • Blær
   Í Málfarsbanka Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er mælt með þolfallinu Blæ og þágufallinu Blævi [af kvennafninu].
 • Millivísanir, t.d. þar sem kyn nafnorða er á reiki eða tilbrigði eru í uppflettimynd.
  • djús hk.
   Orðið er einnig til í karlkyni.
   Sjá Orðapistil á vefsíðu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
  • sannleikur kk.
   Sjá einnig veiku beyginguna, sannleiki.
 • Setningarumhverfi sagna, sérstaklega ópersónulegra sagna. Þetta er gert vegna þess að setningarumhverfið getur verið verulega skert, m.v. það sem ætla mætti af beygingardæminu þar sem engir rökliðir aðrir en frumlag koma fram. Að auki eru oft merkingarlegar skorður á frumlagi með sögnunum en það er ekki hægt að sýna í beygingardæminu sjálfu. Dæmin gegna því hlutverki að þrengja notkunarmöguleikana, t.d. með því að sýna muninn á persónulegu og ópersónulegu frumlagi í sögninni bresta (±lifandi). Í athugasemdunum eru einnig tekin dæmi um forsetningarliði, ef sögnin kemur tæplega fyrir án þeirra, sjá sögnina braka.
  • bresta
   Sögnin beygist bæði persónulega og ópersónulega.
   Dæmi um persónulega setningargerð:
   Jörðin brast undir fótum mér.
   Dæmi um ópersónulega setningargerðir:
   Mig brestur vitsmuni til að þekkja þetta.
   Það brast í stiganum við hvert fet.
   Brast þá í snarpann norðaustanbyl.
  • braka
   Sögnin beygist bæði persónulega og ópersónulega.
   Dæmi um persónulega setningargerð:
   Ísinn brakaði undir fótum hans.
   Dæmi um ópersónulega setningargerð:
   Það brakar í gólfinu.
   Algengast er að sögnin sé ópersónuleg.
 • Vísun í ítarefni, t.d. í Orðapistla og Málfarsbanka á vefsíðu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Stafsetningarorðabók og Vísindavefinn:
  • skarhjálmur
   Sjá Orðapistil á vefsíðu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

KB 1.10.2013