Afbrigði

Afbrigði eru sýnd þar sem það á við, t.d. í þágufalli eintölu af nafnorðinu hnífur en þar eru afbrigðin hníf og hnífi.

Afbrigði í BÍN eru strangt tiltekið jafnrétthá, óháð röðun, enda þarf að taka tillit til mismunandi þátta, t.d. uppruna og tíðni í nútímamáli. Það er því ekki einboðið hvernig röðin á að vera. Þrátt fyrir þennan fyrirvara er reynt að hafa röðina þannig að ákjósanlegasta myndin sé á undan víkjandi mynd, t.d. í Haraldur þar sem eignarfallið er Haralds / Haraldar.

Ef ástæða þykir til er birt athugasemd til notenda fyrir ofan beygingardæmið um notkun afbrigða, t.d. í tönn þar sem fleirtölumyndirnar tannir og tönnur eru sagðar sjaldgæfar og í refur þar sem fleirtalan refar er bundin við orðasambönd, t.d. til þess eru refarnir skornir. Athugasemdunum er ætlað það hlutverk að tilgreina þegar tilteknar beygingarmyndir eru aðeins notaðar við tilteknar aðstæður, t.d. í tiltekinni merkingu eða setningarumhverfi. Sjá nánar um athugasemdir.

BÍN nær ekki yfir afbrigði úr eldra máli nema í undantekningartilvikum. Þau eru stundum látin fylgja í athugasemdum, án þess að þau komi fram í sjálfu beygingardæminu, t.d. beygingarmyndirnar ávöxtu og stjórnarháttu í þolfalli fleirtölu af ávöxtur (t.d. þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu) og stjórnarhættir (t.d. göfugar hvatir um nýja stjórnarháttu).

Sjá einnig lýsingu á mörkum afbrigða.

 

KB 1.10.2013