Um beygingardæmin á vefsíðunni

Uppsetning beygingardæma

Efst í hverju beygingardæmi í BÍN er uppflettiorð og orðflokkur þess. Mannanöfn og örnefni eru merkt sérstaklega. Beygingardæmið sjálft er sýnt í ramma með hefðbundnum íslenskum málfræðiheitum sem eru skammstöfuð eftir þörfum. Skástrik eru sett á milli afbrigða. Í hverju beygingardæmi er aðeins eitt orð; sambeyging er ekki sýnd í BÍN.

Ofan við sjálft beygingardæmð eru athugasemdir um notkun orðsins, t.d. um frekari takmarkanir á orðanotkun en hægt er að setja fram í beygingarrammanum. Þar eru einnig leiðbeiningar um málnotkun en annars er BÍN lýsandi en ekki vísandi (þ.e. leiðbeinandi) heimild um beygingarkerfið.

Fjöldi beygingarmynda

Án afbrigða eru beygingarmyndir nafnorðs 16, þ.e. fjögur föll eintölu og fleirtölu, án greinis og með greini. Beygingarmyndir sagnar í persónuhætti eru 48, auk boðháttar, nafnháttar og lýsingarhátta, en að þessu meðtöldu geta beygingarmyndir hverrar sagnar orðið 107. Þá eru spurnarmyndir sagna (t.d. ferðu, fórstu, fariði) ekki taldar með en þær birtast ekki á vefsíðunni enn sem komið er. Beygingarmyndir lýsingarorðs sem tekur stigbreytingu eru allt að 120. Afbrigði geta fjölgað beygingarmyndum einstakra orða verulega. Sjá skýringar á beygingarþáttum allra orðflokka og tölur um fjölda beygingarmynda.

Raunverulegar myndir orða

Við birtingu beygingardæmanna er markmiðið að einskorða efnið við raunverulegar myndir hvers orðs, þ.e. að sýna afbrigði þar sem það á við en fylla ekki upp í beygingardæmi með tilbúnum myndum. Vegna þessa eru eyður í beygingardæmunum, t.d. í miðmyndarsögnum þar sem germyndin er ekki sýnd og í fleirtöluorðum, þar sem eintalan er ekki sýnd. Þetta er í nokkurri andstæðu við það sem stundum hefur verið viðhaft í íslenskum orðabókum. Í beygingardæmunum í BÍN eru samt sem áður beygingarmyndir sem tæplega koma fyrir í málinu, t.d. þar sem orðið kemur helst fyrir í einni fallmynd í tilteknu orðasambandi en er sýnt í öðrum föllum líka. Orðasambandsins er þá getið í athugasemd ofan við beygingardæmið. Sjá skýringu á eyðum hér.

Röð afbrigða

Reynt er að hafa „besta“ afbrigði fremst í röð. Þar er þó margt sem taka þarf tillit til þar sem notkun afbrigða getur verið stílbundin og/eða merkingarbundin og uppruni og tíðni hafa hér einnig áhrif. Reynt er að gefa leiðbeiningar um notkun afbrigða í athugasemdum ofan við beygingardæmið.

Aðgreining beygingardæma

Nefnimynd orðs ræður aðgreiningu beygingardæma. Orðin sannleiki og sannleikur eru því tvö beygingardæmi, jafnvel þótt beyging þeirra blandist oft saman í reynd. Sagnorð sem beygjast bæði sterkt og veikt eru yfirleitt sýnd í tveimur beygingardæmum (t.d. fela) en þó bregður við að leifar af sterkri beygingu séu sýndar í veikri sögn, t.d. í gala (þt. galaði / gól) og hrinda (þt. hrinti / hratt).

Orðum er stundum líka skipt á milli beygingardæma, jafnvel þótt nefnimyndir þeirra séu alveg eins. Þetta á sérstaklega við ef merking er gjörólík (t.d. greni í merkingunum 'viðartegund' og 'tófugreni') en stundum er líka gripið til þessa ráðs ef beygingarmynstur eru mjög greinilega tvö og stofngerð orðanna jafnvel ólík (t.d. kumbur þar sem -ur er ýmist stofnlægt eða ekki, þf. kumbur eða kumb).

Leitarniðurstöður í BÍN á vefsíðunni bera þess merki að fyrsta markmið með verkinu var að koma upp gagnasafni til nota í máltækni. Í gagnagrunninum eru orð flokkuð í svokallaða hluta BÍN, t.d. í almennt mál, nöfn, örnefni, fyrirtækjaheiti o.fl. Orð sem eiga sér stað í meira en einum hluta BÍN birtast sem meira en eitt beygingardæmi í leitarniðurstöðunum, stundum án útskýringar. Orðið Hóll er t.d. beygt sem örnefni og sem fyrirtækisheiti. Í leitarniðurstöðum er örnefnið er merkt karlkynsnafnorð, örnefni en fyrirtækisheitið er aðeins merkt sem karlkynsnafnorð. Stefnt er að því að lagfæra þessar merkingar.

 

Aðsókn að vefsíðunni hefur farið stigvaxandi allt frá opnun 2007.

 

Athugið: Í vinnslu.